Starfsfólk Háskólabrúar og námsráðgjafar Keilis vinna þessa dagana úr umsóknum og eru allir umsækjendur sem uppfylla skilyrði boðaðir í persónuleg inntökuviðtöl.
Vegna mikils fjölda umsókna í Háskólabrú Keilis biðjum við umsækjendur um að sýna biðlund á meðan unnið er úr umsóknum. Haft verður samband við alla umsækjendur.
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Samtals hafa rétt um tvö þúsund einstaklingar lokið náminu og hefur mikill meirihluti þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis við góðan orðstír.
Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.
Á haustönn 2020 er boðið upp á Háskólabrú bæði í staðnámi og fjarnámi, með og án vinnu. Þá er í sumar einnig boðið upp á nýtt úrræði fyrir einstaklinga sem uppfylla ekki inntökuskilyrði í námið, svokallaða Háskólabrú með undirbúningi.