Fara í efni

Mikil tækifæri Keilis í auknu samstarfi við Kanada

Frá fundi Keilis, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og fulltrúa TRU
Frá fundi Keilis, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og fulltrúa TRU
Dr. Douglas Booth, deildarforseti ævintýraleiðsögunáms og ferðaþjónustu við Thompson Rivers University (TRU) í Kanada, fundaði nýverið með forsvarsmönnum Keilis um samstarf skólanna.
 
Frá árinu 2013 hefur háskólinn vottað leiðsögunám í ævintýraferðamennsku á vegum Keilis, en skólinn er viðurkenndur sem einn af leiðandi aðilum á heimsvísu í sérhæfðu leiðsögunámi ævintýraferðaþjónustu.
 
Douglas tók nýverið við starfi deildarforseta við TRU og hefur skólinn lagt áherslu á að treysta enn frekar samstarfið við Keili, meðal annars með sameiginlegri markaðssetningu á leiðsögunámi, innleiðingu nýrra námsbrauta og þátttöku í þróunarverkefnum. Mikil tækifæri eru á auknu samstarfi skólanna, meðal annars sem snýr að sjálfbærni, umhverfisvitund og ferðaþjónustu, ásamt hinum ýmsu birtingarmyndum ævintýraferðamennsku á norðurslóðum.
 
„Við hjá Thompson Rivers University erum stolt af samstarfinu við Keili og gerum okkur grein fyrir þeim mikilvægu áhrifum sem leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hefur haft á ferðaþjónustu á Íslandi“, segir Douglas. „Námið er ekki einungis mikilvægur liður í að mennta hæfa og vel þjálfaða leiðsögumenn í óbyggðaferðum og afþreyingarferðaþjónustu, heldur er með í að mennta næstu kynslóð frumkvöðla í ferðaþjónustu.“ 
 
Fulltrúar TRU og Keilis ákváðu á fundinum að setja saman áætlun um sértæk þróunarverkefni sem snúa gagngert að auknu samstarfi menntastofnananna með áherslu á fyrrgreind atriði. Þá hefur TRU áhuga á að auka enn frekar samstarf við Keili með áherslu á nýtt námsframboð, meðal annars í ferðaþjónustu, viðburðastjórnum innan afþreyingarferðamennsku, námsframboði í fjarnámi svo sem einkaþjálfun, ásamt sjálfbærni og vistvænni ferðaþjónustu. Á fundi með bæjarstjóra Reykjanesbæjar var enn fremur lögð áhersla á samstarfsmöguleika í fræðslutengdri ferðaþjónustu ásamt þróun á tækifærum til útikennslu.
 
Alþjóðlegt nám með mikla möguleika
 
Á núverandi skólaári leggja samtals sextán nemendur frá sex löndum stund á námið, en það tekur átta mánuði þar sem helmingur námstímans fer fram á vettvangi í náttúru Íslands. Nemendurnir í ár koma frá Íslandi, Kanada, Grænlandi, Frakklandi, Hollandi og Kína, en þetta er í fyrsta sinn sem kínverskur nemandi leggur stund á námið. Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hefur vakið athygli bæði meðal íslenskra og erlendra nemenda og hafa samtals 85 nemendur frá hátt í tuttugu þjóðernum útskrifast á undanförnum árum. 
 
Markmið námsins hefur verið að auka færni og þekkingu í flestum geirum ævintýraferðamennsku, meðal annars með því að tryggja öryggi leiðsögu- og ferðamanna í óbyggðum ásamt því að auka gæði og þjónustu í greininni. Að náminu koma bæði innlendir og erlendir kennarar sem hafa allir öðlast alþjóðleg réttindi og mikla færni á sínu sviði, svo sem í fjallamennsku eða kajak- og flúðasiglingum.
 
Um er að ræða 60 ECTS, átta mánaða nám á háskólastigi, sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Útskrifaðir nemendur hafa möguleika á að vinna á óhefðbundnum og fjölbreyttum starfsvettvangi með góðum starfsmöguleikum víða um heim í ört vaxandi grein ævintýraferðamennsku. 
 
Mynd: Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis; Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttakademíu Keilis; Dr. Douglas Booth, deildarforseti hjá TRU; og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.