09.12.2019
Keilir hefur tekið við undirbúningsnámskeiði fyrir nemendur sem stefna á að fara í inntökupróf í læknisfræði eða sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands.
Námskeiðið, sem er nú haldið í 18. sinn, gengur út á að undirbúa þátttakendur fyrir inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði. Nú þegar hafa fjölmargar umsóknir borist í námskeiðið og eru þær talsvert fleiri en á sama tíma í fyrra. Fyrsti verklegi tíminn verður miðvikudaginn 8. janúar næstkomandi.
Keilir byggir námskeiðið á góðum grunni síðustu ára og verða því ekki miklar breytingar á fyrirkomulagi námskeiðisins. Meðal nýjunga má þó nefna að allt námsefni verður framvegis aðgengilegt þátttakendum á Moodle sem mun einfalda aðgengi þeirra að viðamiklum upplýsingabanka.
Fyrirkomulag
Við skráningu fá þátttakendur aðgang Innri vef námskeiðsins þar sem finna má mikið magn af kennsluefni sem safnast hefur saman þessi 18 ár sem það hefur verið kennt. Þátttakendur fá einnig afhenda handbók námskeiðsins sem oftast er kölluð Biblía inntökuprófsins. Hún hefur að geyma dýrmætar upplýsingar um inntökupróf undanfarinna fimm ára auk ýmiss annars fróðleiks sem nýtist við undirbúninginn.
Á vorönn eru svo haldnir vikulegir stoðtímar seinni part miðvikudags í hverri viku. Fyrri hluti tímans er notaður í fyrirlestur um valið efni, en seinni hlutann ganga kennarar um salinn og aðstoða þátttakendur við að leysa dæmi og önnur verkefni tengd fyrirlestrinum. Síðustu tvær vikurnar fyrir sjálft inntökuprófið eru svo daglegir morgunfyrirlestrar þar sem hnykkt er á veigamiklum atriðum fyrir prófið og undirbúning þess.
Þá hafa allir þátttakendur hafa aðgang að þjónustu námsráðgjafa Keilis, auk þess sem hægt er að finna fyrirlestra um námstækni á innri vefnum. Einnig er möguleiki á samtölum við ráðgjafa bæði á staðnum, t.d. í stoðtímum og vorfyrirlestrum, sem og í tölvupósti eða í síma.
Námskeiðið gert aðgengilegt fyrir nemendur af landsbyggðinni
Meðal nýjunga er að vikulegir fyrirlestrar verða teknir upp, bæði úr stoðtímum og morgunfyrirlestrum í vor. Upptökurnar eru bæði hugsaðar fyrir þá þátttakendur sem búa utan suðvesturhornsins, en líka fyrir aðra þátttakendur að hafa möguleikann á að hlýða aftur á efni fyrirlestursins. Hér byggjum við á langri reynslu Keilis í fjarnámi.
Námskeiðið getur þannig gagnast vel nemendum utan höfuðborgarsvæðisins sem hyggja á læknisfræðinám eða nám í sjúkraþjálfunarfræði við Háskóla Íslands. Þeir fá fullan aðgang að öllu rafrænu námsefni, handbók námsefnisins, sem og aðgang að upptökum fyrirlestra og stoðtíma. Þá geta þeir sem hafa tök á sótt vikulega dæma- og stoðtíma, auk þess sem og morgunfyrirlestra eftir að vorprófum framhaldsskólanna lýkur.
Nánari upplýsingar á www.inntokuprof.is