Fara í efni

Mörg tækifæri í tæknifræði

Tæknifræðinám miðar að því að nýta þá verk- og tækniþekkingu sem er til staðar hverju sinni til þróunar á nýjum lausnum fyrir iðnað og atvinnulíf. Í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis er því lögð áhersla á að byggja upp öfluga verkþekkingu samhliða fræðilegri grunnþekkingu með því að flétta saman bókleg fög og verkefnavinnu. Námið hefur hentað vel þeim sem koma úr tæknimiðuðu iðnnámi eða vélstjórnanámi og hafa aflað sér verkþekkingar á vinnumarkaði en einnig þeim sem hafa lokið hefðbundnu stúdentsprófi. 

Fjölbreytt verkefni í samstarfi við atvinnulífið

Nú stunda um sjötíu nemendur tæknifræðinám hjá Keili og virðist mikil vitundarvakning bæði meðal almennings og fyrirtækja á þeim möguleikum sem námið hefur uppá að bjóða. Sífellt fleiri fyrirtæki hafa leitað til Keilis með hagnýt verkefni fyrir nemendur og er nú svo komið að fjöldi gífurlega áhugaverðra verkefna bíða þess að nemendur takist á við þau.

Meðal verkefna sem nemendur hafa verið að vinna í náminu eru aukin sjálfvirkni og nýting afurða í skelfiskvinnslu, hita- og flæðistýring fyrir heitapotta, hönnun á olíukælingu fyrir tölvur í gagnaverum, nýting á fiskafurðum til framleiðslu lífdísels, (Austurbrú), nýting á sorpúrgangi til framleiðslu metangass, og stýring á varmaflæði upphitaðs jarðvegs til ræktunar.

Meðal lokaverkefna á þessu ári má nefna þróun sjálfvirkrar nálavindivélar fyrir veiðafæri, nýting vindorku fyrir vinnslustöð í Grindavík, þróun á raf- og stýribúnaðu fyrir nýja vinnslulínu, ný tækni til að hindra útfellingar í hitaveiturörum, þróun á átöppunarbúnaði fyrir GeoSilica Iceland, ný tækni til að skynja og stýra álagi gervifóta hjá Össuri, ný tækni fyrir álframleiðslu og nettengdar ódýrar veðurstöðvar fyrir almenning. 

Tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis

Keilir býður upp á hagnýtt háskólanám í tæknifræði í samstarfi við Háskóla Íslands og er námið faglína undir Verkfræði- og náttúruvísindasviði skólans. Kennslan fer fram á vegum Keilis en nemendur eru skráðir í Háskóla Íslands og útskrifast þaðan. Með náminu er leitast við að koma til móts við síaukið ákall atvinnulífsins eftir öflugri og fjölbreyttri tæknimenntun á háskólastigi.

Um er að ræða þriggja og hálfs árs nám sem veitir auk B.Sc. gráðu, rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Uppbygging námsins er með óhefðbundnu sniði en það fer fram allt árið fyrir utan sex vikna sumarfrí. Nemendur eiga því kost á að klára námið á þremur árum og komast þannig fljótt út á atvinnumarkaðinn með fagleg réttindi og sérþekkingu sem er sniðin að þörfum atvinnulífsins. 

Umsóknarfrestur um nám sem hefst á haustönn 2014 er til 5. júní næstkomandi.