Fara í efni

Nám í fótaaðgerðafræðum hjá Keili

Fótaaðgerðaskólinn verður í Keili á Ásbrú
Fótaaðgerðaskólinn verður í Keili á Ásbrú
Keilir festi nýverið kaup á öllum tækjum og búnaði Fótaaðgeraðskólans sem hefur starfað undanfarin ár í Snyrtiakademíunni í Kópavogi. Stefnt verður að því að taka inn fyrstu nemendur í námið á haustmánuðum en einungis verður tekið við tíu nemendum í hvert skipti.
 
Fótaaðgerðarnámið hjá Keili er hið eina sinnar tegundar á landinu en mikil og aukin þörf er fyrir sérfræðinga á þessu sviði einkum vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar og vaxandi íþróttaiðkunnar almennings. Um er að ræða hagnýtt og spennandi námstækifæri fyrir dugmikið fólk með mikla atvinnumöguleika.
 
Námið er á framhaldsskólastigi og verður kennt í aðstöðu Keilis á Ásbrú og eru örar strætóferðir milli Höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar. Þá hafa nemendur aðgang að ódýrum nemendaíbúðum á svæðinu.
 
Fótaaðgerðarnám er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu og lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta. Þeir sem ljúka náminu geta sótt um starfsheiti fótaaðgerðafræðings á grundvelli reglugerðar sem velferðarráðuneytið gefur út.
 
Nánari upplýsingar um námið, inntökuskilyrði og námsgjöld verður hægt að nálgast á heimasíðu Keilis fljótlega. Áhugasömum er bent á að skrá nafn og netfang á póstlista eða hafa samband við Keili í síma 578 4000 eða á netfangið keilir@keilir.net.