Sigurður Örn Hreindal Hannesson, nemandi í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis, er kominn í úrslit í Gullegginu 2015 með viðskiptahugmyndina Mekano. Mekano gengur út á þróun og framleiðslu á samsettu fjöltengi fyrir allar gerðir raftækja og USB lágspennutækja.
Gulleggið er frumkvöðlakeppni Klak Innovit. Gulleggið er frábært tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera úr þeim raunverulegar og markvissar áætlanir sem miða að stofnun fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga. Frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.
Þetta er í annað skiptið á tveimur árum sem nemandi úr tæknifræðináminu kemst í úrslit, en viðskiptahugmynd GeoSilica Iceland náði þeim áfanga árið 2013. Á heimasíðu Gulleggsins má lesa viðtal við þau.
Lokahóf Gulleggsins fer fram laugardaginn 7. mars kl 16:00 á Háskólatorgi í Háskóla Íslands.