Nemendur úr Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ, tóku á dögunum þátt í línueltikeppni í aðstöðu tæknifræðináms Háskóla Íslands og Keilis.
Nemendurnir hafa verið með Hakkit sem valfag í 7. bekk og hafa þeir notið aðstoðar kennara og nemenda tæknifræðinámsins. Eitt af því sem nemendurnir tóku sér fyrir hendur var að smíða lítil vélmenni sem eiga að geta ekið eftir strikaðri braut. Tókst keppnin afar vel og voru bæði forsvarsmenn Keilis og nemendur ánægðir með afraksturinn.
Keilir hefur tekið að sér að annast valgreinar fyrir nemendur í Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrir áramót verða krakkarnir í Hakkit smiðjunni í Eldey þar sem þau kynnast undraheim nýsköpunar og tækni, en eftir áramót kynna þau sér fluggreinar svo sem flugvirkjun og flugnám.