Fara í efni

Nútímaleg skjalastjórnun

Keilir hefur samið við fyrirtækið OneSystems við skipulagningu skjalavörslu og meðhöndlun upplýsinga innan fyrirtækisins.

Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því innan Keilis að skipuleggja skjalavörslu og meðhöndlun upplýsinga innan fyrirtækisins. Sem kunnugt er fylgir mikið magn upplýsinga hverju fyrirtæki. Vandinn getur verið sá hvernig hyggilegast er að koma þeim til skila þannig að réttir aðilar fái upplýsingarnar. Þá er þekkt að geymsla upplýsinga getur verið vandasöm.

Keilisfólk valdi eftir mikla yfirlegu að semja við fyrirtækið OneSystems um aðgang að búnaði þess. Póstur, sem berst Keili hér eftir, verður skannaður inn og rafræn útgáfa send þeim sem heldur um málið. Gildir þetta um allan póst, verkefni og annað sem máli skiptir. Starfsfólk mun hafa aðgang að gögnum hvaðan sem er svo lengi sem tölvusamband er til staðar. 

Samhliða samningi milli Keilis og OneSystems færði síðarnefnda fyrirtækið Keili að gjöf myndarlegan styrk til að þróa enn frekar kennsluhætti en Keilir vill vera í fararbroddi með nýja og árangursríka kennsluhætti. Þannig verður mest öll kennsla á formi svonefndrar speglaðrar kennslu (flipped classroom) sem gjörbreytir nálgun nemenda að skýringum kennara. Styrkur OneSystems nýtist vel í þessum tilgangi.

Á myndinni afhendir Ingimar Arndal, forstjóri OneSystems þeim Stefaníu Gunnarsdóttur, bókasafnsfræðingi, og Hjálmar Árnasyni, framkvæmdastjóra, styrkinn.