Fara í efni

Nýr skólastjóri og forstöðumaður Flugakademíunnar

Tómas Beck hefur tekið við sem skólastjóri og Rúnar Fossádal Árnason sem forstöðumaður Flugakademíu Keilis.

Kári Kárason hefur látið af störfum sem forstöðumaður og skólastjóri Flugakademíu Keilis. Kári hóf störf hjá Keili árið 2007 og er því einn af stofnendum Flugakademíunnar. Keilir þakkar Kára fyrir vel unnin störf við uppbyggingu og rekstur Flugakademíunnar á undanförnum árum. Kári er stjórnarformaður nýs rekstrarfélags Flugakademíunnar, KAOC - Keilir Air Operation Center ehf.

Við starfi Kára hafa tekið við Tómas Beck sem mun gegna stöðu skólastjóra Flugakademíu Keilis og Rúnar Fossádal Árnason sem er nýr forstöðumaður og Accountable Manager Flugakademíu Keilis.

Tómas Beck, skólastjóri Flugakademíu Keilis

Tómas hefur starfað hjá Keili síðan haustið 2009, lengst af sem yfirflugkennari. Hann starfar einnig sem flugmaður hjá Icelandair. Hann er stúdent af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Kópavogi 2000, öðlaðist einkaflugmannsréttindi sama ár og atvinnuflugmannsskírteini með blindflugsáritun á fjölhreyfla flugvél 2003. Flugkennararéttindi árið 2003 og fjölhreyfla- og blindflugs kennsluréttindi frá 2004. MCC áhafnasamstarfsnámskeið frá Oxford aviation 2003, B737 tegundarréttindi 2004 og B757/767 tegundarréttindi 2005.

Hann hefur starfað áður sem flugkennari við flugskólana Flugsýn, Flugskóla Íslands og Flugakademíu Keilis. Flugmaður hjá Icelandair frá árinu 2005 á B757/767. Heildarflugtímar eru tæplega 6000, þar af eru 4000 á turbo-jet og yfir 1500 í kennslu.

Rúnar Fossádal Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis

Rúnar er rekstrarfræðingur og hefur mikla reynslu af stjórnun fyrirtækja og verkefna og hefur m.a. undanfarin ár starfað sjálfstætt sem rekstrarráðgjafi við ýmiskonar verkefna- og fyrirtækjaráðgjöf, með áherslu á verkefni er tengjast verkefna-, breytinga- gæða- og starfsmannastjórnun, öryggismálum sem og kostnaðargreiningu svo eitthvað sé nefnt.  Hefur m.a. starfað að breytingastjórnun erlendis fyrir fyrirtæki á borð við KLM, Air France, Cirrus, Logan Air, Cimber ofl. og má nefna störf í löndum eins Bretlandi, Hollandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, lönd í Suður Ameríku og Mið-Austurlöndum. 

Rúnar gegndi starfi framkvæmdastjóra móðurfélags City Star Airlines ehf. og allra dótturfélaga þess á Íslandi og Skotlandi. Rúnar bar ábyrgð á flugrekstri gagnvart Flugmálastjórn Íslands og á Bretlandseyjum þar sem hann gegndi stöðu ábyrgðarmanns “Accountable Manager” hjá flugfélagi og viðhaldsfyrirtækjum. 

Keilir býður þá Rúnar og Tómas velkomna til starfa og óskar þeim velfarnaðar í starfi.