Fara í efni

Nýr vefur með upptökum í speglaðri kennslu

Frá undirritun samnings Keilis og Heiðarskóla
Frá undirritun samnings Keilis og Heiðarskóla

Á dögunum var opnuð heimasíða með kennsluefni í náttúrufræði ætlaður nemendum og kennurum í 8. - 10. bekk grunnskóla. Vefurinn er afurð grunnskólakennara og Keilis við þróun speglaðra kennsluhátta. Mikill áhugi er meðal skólafólks á speglaðri kennslu og hafa yfir þúsund manns hafa heimsótt Keili á þessu ári til að kynna sér slíka kennsluhætti sem Keilir hefur innleitt undanfarin ár. Þá komu um 500 manns á ráðstefnu hjá Keili í vor um sama efni. Með opnun á síðunni eru stigin alvöru skref í þessa átt.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, opnuðu formlega fyrir aðgang að upptökum á netinu sem innihalda kennsluefni í náttúrufræðum fyrir 8. - 10. bekk grunnskóla. Kennararnir Ragnar Þór Pétursson og Þormóður Logi Björnsson hafa skipulagt og tekið upp. Þetta þýðir að allir kennarar og nemendur á landinu geta nýtt sér þessar innlagnir.
 
Uppbygging námsefnisins og heimasíðunnar, sem er styrkt af Þróunarsjóði námsganga, Reykjanesbæ og Keili, er átaksverkefni og hluti af þróun speglaðra kennsluhátta - flipped classroom - en með tilkomu hinnar nýju leiðar geta nemendur hlustað heima á kennara fjalla um efnið eins oft og þeir vilja og þegar þeir vilja. Þannig koma nemendur undirbúnir í skólann þar sem þeir taka til við að vinna verkefni. Þarna er sem sagt hlutverkum snúið við, þar sem heimanámið er fært inn í skólana og rödd kennarans fer með nemandanum heim. Þetta er í raun bylting í kennsluháttum og er Ísland fyrsta landið til að taka heila kennslugrein fyrir heilu árgangana og bjóða nemendum sínum, segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.
 
Við sama tækifæri verður undirritaður samningur milli Keilis og Heiðarskóla í Reykjanesbæ um að allt efni í stærðfræði 8. - 10. bekkja verði tekið upp með sama hætti. Þá er í undirbúningi að taka upp þrjár aðrar kennslugreinar með sama hætti. Óhætt er að segja að mikill áhugi skólafólks sé á að laga lærdómsferlið betur að nútímanum.  Spegluð kennsla virðist geta þjónað þeim markmiðum vel og Ísland er sannarlega í forystu með þetta skemmtilega form á námi og kennslu. 
 
Hægt er að skoða heimasíðuna á slóðinni www.flipp.is. Einnig er hægt að kynna sér nánar speglaða kennsluhætti á heimasíðu Keilis á slóðinni www.keilir.net/flipp