30.06.2020
Frá undirritun verk- og þjónustusamnings um frumkvöðla- og rannsóknarsetrið Eldey í Keili þann 29. júní 2020.
Keilir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og Eignarhaldsfélag Suðurnesja hafa undirritað verk- og þjónustusamning um uppbyggingu nýs frumkvöðla- og rannsóknarseturs.
Setrið mun bera nafnið Eldey, en sambærilegt frumkvöðlasetur undir sama nafni var starfrækt um árabil á Ásbrú, við góðar undirtektir. Á undanförnum misserum og með breytingum á eignarhaldi fasteigna á Ásbrú, hefur myndast þörf fyrir að setja upp nýtt samfélag frumkvöðla á Suðurnesjunum og er vonast til að samningnum verði til öflugt setur nýsköpunar og rannsókna á svæðinu.
Samkvæmt samningnum, sem var undirritaður þann 29. júní síðastliðinn, munu samningsaðilar vinna sameiginlega að uppbyggingu samfélags frumkvöðla, rannsókna, fræða og atvinnulífs á Suðurnesjunum, ásamt því sem þeir skuldbinda sig til að vera virkir þátttakendur í vexti og eflingu frumkvöðlasetursins.
Fyrirhugað er að í Eldey verði haldin regluleg hádegiserindi og fyrirlestrar sem miða að þörfum frumkvöðla. Þá tilgreinir samningurinn að SSS muni aðstoða frumkvöðla við að koma hugmyndum sínum á legg og veita þeim ráðgjöf meðal annars varðandi styrkumsóknir og viðskiptaþróun.
Frumkvöðlasetrið Eldey verður staðsett í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Áhugasamir einstaklingar og fyrirtæki sem uppfylla staðla um nýsköpun og vilja komast að í frumkvöðlasetrinu geta haft samband við Dagný Gísladóttur, verkefnastjóra Heklunnar - atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, en stefnt er að opnun setursins í byrjun ágúst.
Mynd frá vinstri: Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS; Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis; Gunnhildur Vilbergsdóttir, formaður stjórnar Eignarhaldsfélags Suðurnesja.