Fara í efni

Óendanlegir möguleikar

Grein í Fréttablaðinu 20. apríl 2010 um Orku- og tækniskóla Keilis og námsframboð í tæknifræði. Grein í Fréttablaðinu 20. apríl 2010 um Orku- og tækniskóla Keilis og námsframboð í tæknifræði.

 

 

Orku- og tækniskólinn er einn af fjórum skólum Keilis á Ásbrú, hinu gamla varnarsvæði Bandaríkjahers á Íslandi. Þar eru í boði tvær spennandi námsleiðir.

 
"Tæknifræðinámið hjá Orku- og tækniskóla Keilis er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Keilis - miðstöð, vísinda, fræða og atvinnulífs. Nemendur útskrifast með BS-gráður frá HÍ og ljúka einnig viðbótarnámi sem uppfyllir skilyrði til umsóknar um að verða tæknifræðingur," segir Rúnar Unnþórsson, forstöðumaður Orku- og tækniskóla Keilis - miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs.
 
"Í náminu er mikil áhersla lögð á verklegar æfingar, að nemendur sannreyni fræðin og æfi sig í að beita þeim. Markmiðið er að skila nemendum sem hæfustum út í atvinnulífið og því eru verklegar æfingar mikilvægar. Skólinn er vettvangurinn til að gera mistök og prófa sig áfram."
 
Í boði eru tvær námsleiðir: Orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník tæknifræði. Námið er skipulagt sem þriggja ára nám en það má taka á lengri tíma.
 
"Orku- og umhverfistæknifræðin snýst um vistvæna, endurnýjanlega orku, tæknina á bak við hana og þær aðferðir sem hægt er að nota til að beisla hana. Í því samhengi er umhverfið mikilvægur þáttur. Nemendur læra að meta umhverfisáhrifin sem felast í virkjun mismunandi orkuauðlinda. Megináherslan er á jarðvarmaorku og að nemendur öðlist skilning á tæknilegum atriðum ofan og neðan yfirborðs jarðar," segir Rúnar og bætir við að efnafræði sé gert hátt undir höfði í náminu þar sem hún spili stóran þátt í nýtingu jarðvarma og lífræns eldsneytis.
 
"Orkugeirinn á Íslandi hefur vaxið mjög að undanförnu og aukin þörf fyrir tæknimenntað starfsfólk við undirbúning og mat verkefna, hönnun og framkvæmd, eftirlit, viðhald og rekstur. Því hafa kröfur aukist um starfsfólk með þverfaglegan bakgrunn í orkufræðum og jarðvísindum, ásamt þekkingu á vélbúnaði."
 
Hitt námskeið Orku- og tækniskólans er mekatróník. Það er hugtak sem nær yfir stjórnun vélbúnaðar með rafmagni og hugbúnaði, og segir Rúnar vaxandi þörf fyrir tæknimenntað fólk sem hannað getur, smíðað og viðhaldið vélbúnaði sem er búinn rafeinda- og hugbúnaðarstýringum, en þess má geta að hingað til hafa Íslendingar þurft að sækja þá menntun til útlanda.
 
"Mekatróník snýst í hnotskurn um að létta okkur lífið og ná sem bestri nýtni úr kerfum. Í náminu er lögð áhersla á sambland af hreyfifræði, sjálfvirkni og nýsköpun, en hreyfifræði tengist öllu sem hreyfist eins og vélmennum, færiböndum og jafnvel mannslíkamanum eins og þekkist vel í starfi fyrirtækjanna Össurar og Marels. Sjálfvirkni er mikilvæg í öllum iðnaði því aukin sjálfvirkni minnkar mistök, eykur afköst og nákvæmni, og auðveldar gæðastjórnun. Þá er nýsköpun innifalin í hugtakinu mekatróník og í náminu er lögð rík áhersla á að nemendur tileinki sér skapandi hugsun, læri markviss vinnubrögð við útfærslu hugmynda og geti útbúið frumgerðir að lausnum."
 
Að sögn Rúnars er aðstaða Orku- og tækniskólans fyrsta flokks, en verkleg aðstaða er í þúsund fermetra húsnæði. Þá er efnafræðistofa og smíðaaðstaða fádæma vel búin og á næstu dögum bætast við tveir stórir sjö ása iðnaðarþjarkar, líkt og notaðir eru í bílaframleiðslu, og gefa óendanlega möguleika í verkefnum.
 
"Hér er einstakt að stunda nám. Háskólasamfélagið er orðið það stærsta á Íslandi, með 1.800 manns í afar hagkvæmu húsnæði og frítt í rútu á milli Reykjavíkur og Ásbrúar. Stemningin er frábær og allir una vel við sitt."