Keilir hefur bætt við Kvikmyndasögu og Fjármálalæsi í safn opinna fjarnámsáfanga sem miðast við aðalnámskrá framhaldsskólanna.
Áfangarnir henta vel öllum þeim sem þurfa að uppfylla ákveðnar forkröfur til náms innan annarra deilda Keilis. Þeir eru einungis kenndir í fjarnámi og geta nemendur skráð sig og byrjað hvenær sem þeim hentar. Áfangarnir byggja á fjölbreyttu námsmati og gilda öll verkefni til lokaeinkunnar en ekki eru lokapróf. Verkefni geta verið rituð verkefni eða munnleg, kvikmyndir, próf eða hvað annað sem við á.
Í áfanganum verður fjallað um sögu kvikmyndanna, frá fyrstu verkum frumkvöðlanna til dagsins í dag. Fjallað verður um helstu tímabil, strauma og stefnur, þekkta framleiðendur, leikstjóra, leikara og leikkonur. Einnig verður fjallað um kvikmyndina sem áróðurstæki og sem leið til að skrá sögu okkar. Íslenskar kvikmyndir verða teknar sérstaklega fyrir.
Áfanganum er ætlað að efla læsi nemenda á kvikmyndir, að þeir þekki til þróunnar kvikmyndarinnar sem listforms og sem afþreyingariðnaðar og að helstu áhrifavaldar séu þeim kunnir. Áfanganum er einnig ætlað að efla gagnrýna og skapandi hugsun og almenna þekkingu á kvikmyndaiðnaðinum.
Í áfanganum er farið í gildi fjármála fyrir einstaklinginn, fyrirtækið og samfélagið. Lögð verður áhersla á fjármálalæsi sem hagnýta fræðigrein sem nýtist öllum í námi og starfi. Í áfanganum er fjallað um ábyrgð á sviði fjármála, tekjur, útgjöld, sparnað, lánamál, peningaáhyggjur, eðli peninga, fjármálastofnanir og ýmislegt fleira.
Fjármálalæsi felur í sér getu til að greina valkosti í fjármálum, fjalla um peninga án vandkvæða, gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum forsendum ákvarðana í fjármálum, þar með talið í efnahagsumhverfinu. Fjármálalæsi byggist á þekkingu, viðhorfum og hegðun og snýst um að geta tekið upplýstar, meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum til lengri og skemmri tíma. Lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur taki ábyrgð á því að skipuleggja vinnu sína og læri að nýta sér þau hjálpartæki sem í boði eru.