18.04.2016
Fisktækniskóli Íslands og Keilir hafa undirritað samning um nánara samstarf milli þessara tveggja menntastofnana sem tekur meðal annars til þróunar á sjávarútvegstengdu námi og aukinna möguleika á framhaldsnámi fyrir nemendur Fisktækniskólans á framhalds- og háskólastigi.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, og Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskólans, undirrituðu samninginn í blíðskaparveðri á lóð Kvikunnar við Grindarvíkurhöfn þann 14. apríl síðastliðinn.
Samtarfið mun taka mið af námsbrautum Fisktækniskólans á sjávarútvegstengdu sviði og tæknifræðinámi Háskóla Íslands á vettvangi Keilis, þar sem mikil áhersla er lögð á sjálfvirkni, iðnstýringar og þróun vinnslutækni. Þá tekur samningurinn einnig til samstarf um háskólabrúarnám fyrir nemendur Fisktækniskólans og þróun kennslu og nýrra kennsluhátta, meðal annars í vendinámi.
Að sögn Ólafs Jóns og Hjálmars, mun aukið samstarf þessara tveggja skóla eflt bæði nám og kennslu, auk þess að styrkja tengsl skólanna við atvinnulífið á svæðinu. Þá munu nemendur njóta góðs af samstarfinu með auknu og fjölbreyttara framhaldsnámi.
Mynd: Ólafur Jón Arnbjörnsson og Hjálmar Árnason við undirritun samningsins