Fara í efni

Samstarfsverkefni um menntun í orkufræðum

Prófun á mismunandi sólarsellum í Iðnskólanum í Velenje
Prófun á mismunandi sólarsellum í Iðnskólanum í Velenje

Keilir tekur þátt í samstarfsverkefninu Enter+ með fræðsluaðilum frá Frakklandi, Þýskalandi, Slóveníu og Ítalíu. Verkefnið gengur út á að búa til samstarfsnet evrópskra menntastofnanna með áherslu á nám og þjálfun sem tengist endurnýjanlegri orkutækni og leiðum til orkunýtni. Keilir tekur þátt í samstarfsverkefninu Enter+ með fræðsluaðilum frá Frakklandi, Þýskalandi, Slóveníu og Ítalíu. Verkefnið gengur út á að búa til samstarfsnet evrópskra menntastofnanna með áherslu á nám og þjálfun sem tengist endurnýjanlegri orkutækni og leiðum til orkunýtni.

 

Þetta er í samræmi við áherslur Evrópusambandsins í orkumálum, en fyrirséð er að slíkar breytingar yfir í vistvænt eldsneyti og endurnýjanlega orku, munu leiða af sér innleiðingu nýrrar tækni í aðildarlöndunum, nýjar atvinnugreinar og færni starfsfólks. Áhersla verkefnisins mun þar af leiðandi vera á samantekt á nýjungum í starfsþjálfun og námsleiðum sem tengjast breytingum í orkumálum. 

 
Þriðji fundur verkefnisins var haldinn í Ptuj í Slóveníu um miðjan október síðastliðinn, og tóku Arnbjörn Ólafsson og Tomasz Miklis frá Orku- og tækniskólanum þátt í fundinum fyrir hönd Keilis. Í Slóveníu var meðal annars farið í framhaldsskóla, iðnskóla og tækniskóla til að skoða búnað og aðstöðu til kennslu í orkufræðum, m.a. nýtingu sólar- og vindorku, ásamt orkunýtni og orkukerfi. Skoðaður var kennslubúnaður og sjálfbært hús (passive house), en þar er vind- og sólarorka, ásamt jarðhita notuð til að framleiða rafmagn og hita í kennsluhúsnæði á skólalóðinni. Húsið er algerlega sjálfbært og framleiðir á sumrin umfram raforku sem er sett inn á raforkukerfi skólans. Húsið er nýtt sem kennsluhúsnæði, en mjög ítarlegt og öflugt eftirlits- og stýrikerfi er með orkunýtingu í húsinu. 
 
 
Enter+ hópurinn í Slóveníu, október 2011
 
Markmið verkefnisins er að búa til samevrópskt tengslanet fyrir kennara og þjálfara, á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, orkunýtni og nýtingu. Verkefnið miðar að því að ýta undir samstarf milli mismunandi evrópskra stofnanna sem fást við menntun og þjálfun í umhverfis- og orkumálum. Verkefnið mun deila góðum starfsháttum í þjálfun og námi sem tengist umhverfi og orku, sérstaklega í fullorðinsfræðslu og starfsþjálfun, auka við þekkingu, aðferðafræði og kennsluefni í umhverfis og orkumálum fyrir fullorðna, og auka áhuga og sjálfstæði nemenda á efninu.
 
 
Verkefnið er styrkt af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Nánari upplýsingar um Enter+ verkefnið má nálgast á heimasíðu Keilis og á heimasíðu Enter+ á slóðinni: www.enterplus.net