19.11.2011
Mikil þörf fyrir vel menntað starfsfólk í hugverka-, tækni- og orkufyrirtækjum á næstu árum.
Mikil þörf fyrir vel menntað starfsfólk í hugverka-, tækni- og orkufyrirtækjum á næstu árum.
Grein í Fréttablaðinu 19. nóvember 2011
Á nýafstöðnu þingi Samtaka iðnaðarins var fjallað um starfsskilyrði tækni- og hugverkafyrirtækja á landinu, og hvernig stjórnvöld og atvinnulífið geta bætt stöðu þeirra. Mennta- og atvinnumál tæknigreina voru ofarlega á baugi í framsöguerindum á þinginu.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, benti á í opnunarerindi þingsins að á sama tíma og skortur er á háskólamenntuðu fólki í tækni- og raungreinum hefur um fjórðungur atvinnulausra lokið stúdentsprófi eða er háskólamenntaður. Þarna sé því klárlega ósamræmi sem verði að taka á, þar sem gott aðgengi að sérhæfðu og menntuðu starfsfólki í tækni- og hugverkagreinum væri lykilatriði fyrir framþróun þessara fyrirtækja í landinu. [Heimild]
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, tekur í sama streng og segir að komið hafi í ljós mikill skortur sé á starfsfólki í þessum tæknigreinum. Við vorum greinilega að beina starfsfólki hér fyrir hrun í annað en raunverulega atvinnulífið þarf í dag. Þannig að við erum að reyna að opna allar gáttir í menntakerfinu, til dæmis tæknigreinar, bæði iðngreinar og bóklegar greinar. [Heimild]
Atvinnulífið kallar eftir tæknimenntuðu starfsfólki
Í fyrirtækjum landsins eru að verða til störf sem illa gengur að manna. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Marorku, hefur á síðustu misserum ítrekað bent á þá staðreynd að það kunni á næstu árum að reynast erfitt að mæta eftirpurn eftir vel menntuðu fólki í tæknigreinum. Það hindri vöxt fyrirtækja hér á landi og stöðvi frekari sköpun nýrra atvinnutækifæra. [Heimild]
Könnun á þörfum iðnaðarins fyrir menntað fólk sem var unnin af Capacent fyrir Samtök iðnaðarins í janúar 2011 staðfestir þessar áhyggjur fyrirtækja í tæknigreinum. Það er skortur á fólki með tæknimenntun og það verður að bæta við verulegum fjölda af tæknifræðingum, verkfræðingum og tölvunarfræðingum á næstu árum til að mæta þörf atvinnulífsins. [Heimild]
Tækifæri í tæknifræði
Aðgangur að vel menntuðu og sérhæfðu vinnuafli er hagsmunamál allra fyrirtækja, enn er þó verulegt misvægi milli framboðs og eftirspurnar í tæknigreinum. Atvinnuauglýsingar, greinaskrif og erindi frá fyrirtækjum og aðilum vinnumarkaðarins sýna í hnotskurn þennan vanda atvinnulífsins. Þrátt fyrir samdrátt í byggingargreinum á Íslandi undanfarin ár, eru enn miklir möguleikar í atvinnulífinu fyrir tæknimenntað fólk. Tæknigreinar eru til að mynda í meirihluta þeirra atvinnuauglýsinga sem eru birtar í blöðunum (helgina 12. 14. nóvember voru t.d. sjö auglýsingar í Fréttablaðinu þar sem auglýst var sérstaklega eftir tæknifræðingum).
Í opnunarerindi iðnaðarráðherra á Tækni- og hugverkaþingi SI 2011 kom fram að áætlað er að árlega þurfi um þúsund nýja tæknimenntaða starfsmenn inn á vinnumarkaðinn til að uppfylla þarfir tækni- og hugverkafyrirtækja. [Heimild]
Samkvæmt Jóni Ágústi er sú tala varlega áætluð og telur hann að það verði að útskrifa allt að tvö þúsund einstaklinga árlega í hönnun, hugbúnaðargerð, verkfræði, tæknifræði, vélfræði, rafeindafræði og skyldum greinum til að mæta þörfum atvinnulífsins. Enn fremur bendir hann á að námið þurfi að vera sniðið að þörfum greinarinnar og að draga þurfi verulega úr kennslu í afleiddum greinum eins og fjármálaverkfræði, iðnaðarverkfræði og rekstrarverkfræði. Ef mannvirkjageirinn vex aftur töpum við tækifærum í því að endurmennta kynslóðir inn í undirstöðuatvinnuvegina og gera mannvirkjageirann sjálfbæran. [Heimild]
Háskólanám í tæknifræði
Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri Tæknifræðingafélags Íslands, gerir menntun tæknifræðinga að umfjöllunarefni sínu í nýjasta tölublaði Verktækni og bendir á að ef rétt er farið að munu tæknimenntaðar stéttir bera uppi velmegun á Íslandi til framtíðar. Forsenda þess að Íslendingar geti viðhaldið lífsgæðum og haldið áfram að þróast er að það séu tekjur af atvinnustarfsemi. Það verður eingöngu gert ef fyrir hendi er vel menntað fólk í tæknigreinum sem stundar rannsóknir og þróunarstarf. [Heimild]
Vöxtur hugverka- og tæknifyrirtækja á Íslandi, aukin atvinnutækifæri og góð launakjör hljóta að vera hvatning fyrir fólk að sækja háskólanám í tæknigreinum. Hvort heldur sem það kemur beint úr framhaldsskóla, öðru háskólanámi eða úr starfi í iðn- og starfsgreinum. Það er lykilatriði að geta boðið þessu fólki upp á hagnýtt og hnitmiðað háskólanám sem er sniðið að þörfum atvinnulífsins og þeirra nemenda sem námið stunda. Einungis með samstilltu átaki menntastofnana, atvinnulífs og nemenda verður framgangur íslenskra tæknigreina tryggður í framtíðinni.
Keilir býður upp á stutt, hagnýtt og nýstárlegt háskólanám í tæknifræði í samstarfi við Háskóla Íslands. Námið er sniðið að þörfum atvinnulífsins, byggir á raunverulegum verkefnum og verkviti nemenda. Nemendur ljúka BSc-gráðu í tæknifræði á þremur árum og komast því fljótt út á vinnumarkaðinn, þar sem þeir geta tekið þátt í uppbyggingu og starfsemi áhugaverðustu hugverka-, tækni- og orkufyrirtækja Íslands.
Karl Sölvi Guðmundsson
Forstöðumaður tæknifræðináms
Orku- og tækniskóli Keilis