Fara í efni

Spegluð kennsla í stærðfræði

Fulltrúar Heiðarskóla, Keilis og Reykjanesbæjar
Fulltrúar Heiðarskóla, Keilis og Reykjanesbæjar

Stærðfræðikennarar í Heiðarskóla í Reykjanesbæ kynntu á dögunum upptökur af innlögnum námsþátta í stærðfræði fyrir á unglingastigi.

Stærðfræðikennarar í Heiðarskóla í Reykjanesbæ kynntu stjórnendum og fulltrúum Keilis upptökur af innlögnum námsþátta í stærðfræði fyrir nemendur í 8. - 10. bekk grunnskóla, 11. mars síðastliðinn. Verkið er samstarf Heiðarskóla og Keilis og tengist speglaðri kennslu, en Keilir og grunnskólar Reykjanesbæjar hafa sett sér að vera í fararbroddi þegar kemur að innleiðingu kennsluhátta 21. aldar. Öllum nemendum og kennurum á landinu verður gert mögulegt að nota upptökurnar við nám og kennslu í stærðfræði.

Spegluð kennsla (flipped classroom eða vendikennsla) felst í því að nemandi hlustar á upptökur kennara af efninu þegar honum hentar og vinnur verkefni í kjölfarið með aðstoð kennara ef þörf er á. Með því er komið til móts við einstaklingsmiðaðan lærdóm.

Samkvæmt samningi Keilis og Heiðarskóla verða upptökurnar komnar á netið, aðgengilegar öllum næsta haust. Þar með verða komnar á netið upptökur í stærðfræði, náttúrufræði, raungreinum og hluti af íslensku í 8. ? 10. bekk.

Segja má að með þessu skrefi sé speglaða kennslan komin á gott skrið enda fjölmargir skólar að stíga skref í þá átt. Að sögn Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Keilis, Sóleyjar Höllu, skólastjóra Heiðarskóla, og Gylfa Jóns Gylfasonar, fræðslustjóra Reykjanesbæjar, er þessi áfangi afar ánægjulegur og vonandi að skólamenn á landinu öllu muni kynna sér efnið og nýta það til að auka áhuga nemenda  og um leið gæði kennslunnar.

Verkið er unnið með styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem og sveitarfélögum á Reykjanesi. Námsgagnastofnun hefur tekið að sér að vista efnið á slóðinni www.vendikennsla.is.

Frá Heiðarskóla í Reykjanesbæ: Sóley Halla Þórhallsdóttir, skólastjóri; Haraldur Axel Einarsson, aðstoðarskólastjóri; og Íris Ástþórsdóttir, Þóra Guðrún Einarsdóttir og Þórey Garðarsdóttir, stærðfræðikennarar. Frá Keili: Hjálmar Árnason, framkvæmdarstjóri. Frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar: Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar.