Fara í efni

Tæknifræði - Frá hugmynd að afurð

Háskóli Íslands og Keilir bjóða í samstarfi upp á þriggja og hálfs árs háskólanám í tæknifræði, en námið er námsleið undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Nemendur eru skráðir í Háskólann og útskrifast þaðan en námið fer fram á vettvangi Keilis að Ásbrú. 

Með náminu er  leitast við að fylla upp í þarfir atvinnulífsins með hagnýtu tækninámi á háskólastigi. Jafnframt að höfða til þeirra sem telja sig eiga erindi í tækninám á háskólastigi með áherslu á beina hagnýtingu.

Undirtitill Keilis er miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sem undirstrikar það hlutverk að tengja menntun og þekkingu við atvinnulíf og nýsköpun. Það hlutverk fellur vel að markmiðum tæknifræðinnar og má því segja að náminu sé vel fyrir komið í því menntaumhverfi sem Keili er falið að skapa í því þekkingarsamfélagi sem hefur orðið til á Ásbrú á fyrrum varnasvæði NATO.

Námslínur 

Boðið er upp á tvær námslínur, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði. Mekatróník snýst um að nýta rafeinda- og tölvutækni samhliða hönnun á vélbúnaði til að búa til sjálfvirkan vélbúnað. Námið nýtist þeim sem vilja vinna við tækniþróun og nýsköpun.

Orku- og umhverfistæknifræði snýst um nýtingu vistvænnar og endurnýjanlegrar orku. Áhersla er lögð á fjölþætta tækniþekkingu sem nýtist á flestum sviðum orkugeirans, m.a., efna-, véla- og rafmagnsfræði. Meðal viðfangsefna eru nýting vistvænna orkugjafa eins og lífræns eldsneytis, jarðvarmaorku, vindorku o.fl. 

Námið og aðstaða 

Námið fer fram allt árið fyrir utan sex vikna sumarfrí sem þýðir að hægt er að klára þriggja og hálfs árs nám á þremur árum. Námsárinu er að auki skipt upp í lotur þar sem bókleg fög og verkefnavinna fléttast saman og verkefnalotur þar sem áhersla er lögð á raunveruleg viðfangsefni, tengd atvinnulífi og nýsköpun.   

Í náminu er mikil áhersla á verklega kennslu og verkefnavinnu. Auk hefðbundinna kennslustofa hafa nemendur aðgang að sérhæfðum rannsóknar- og tilraunastofum. Verkefnavinna nemenda fer fram í aðstöðu innan Keilis sem samanstendur m.a. af:

  • Efnarannsóknastofu sem búin er tækjabúnaði til efnagreininga og örverurannsókna.
  • Rafmagns- og stýritæknistofu, sem býður upp á þróun á sjálfvirkum búnaði sem fléttar saman örtölvum, hugbúnaðargerð, rafeindatækni og vélbúnaði.
  • Votrýmisaðstöðu fyrir meðhöndlun vökva í tilrauna- og hönnunarverkefnum. 
  • Smiðju sem er m.a. búin öllum helstu verkfærum sem þarf til hefðbundinnar plast og málmvinnslu.

Tengsl við atvinnulíf og nýsköpun

Öflug tengsl hafa skapast milli atvinnulífs og tæknifræðinámsins og stöðug aukning er í aðkomu fyrirtækja að bæði verkefnalotum og lokaverkefnum nemenda. Verkefnin hafa tengst orkuiðnaði, álframleiðslu, hátæknifyrirtækjum, umhverfiseftirliti og sprotafyrirtækjum á Ásbrúarsvæðinu og víðar svo fátt eitt sé talið. Einnig má nefna fjölmörg þróunarverkefni í samstarfi við fyrirtæki í sjávarútvegi sem snúa að aukinni sjálfvirkni í vinnslu og bættri nýtingu afurða.

Í þekkingarsamfélaginu á Ásbrú hefur orðið til skapandi umhverfi frumkvöðla og fyrirtækja með áherslu á nýsköpun og tæknigreinar. Að loknu námi býðst nemendum ódýr aðstaða í einu glæsilegasta frumkvöðlasetri landsins, Eldey, þar sem þeir geta þróa hugmyndir og komið sprotafyrirtækjum á legg.

Nemendur

Tæknifræðinám Keilis hefur verið starfrækt í átta ár. Útskrifaðir nemendur vinna m.a. í orkufyrirtækjum,  hugbúnaðafyrirtækjum,  sprotafyrirtækjum, á verkfræðistofum og hjá fyrirtækjum sem þjónusta atvinnulíf og iðnað. Einnig hafa útskrifaðir nemendur farið í framhaldsnám í tæknifræði og skyldum greinum bæði hérlendis og erlendis

Að auki hafa nemendur stofnað sín eigin nýsköpunarfyrirtæki í framhaldi af lokaverkefnum sínum og meðal annars nýtt til þess aðstöðu við frumkvöðlasetrið Eldey. Sem dæmi er þar nú starfandi fyrirtækin Geosilica sem vinnur að þróun fæðubótarefna úr jarðhitavatni, Mekano sem vinnur að þróun og markaðssetningu á nýrri kynslóð fjöltengla. Bæði stofnendur og starfsmenn fyrirtækjanna eru útskrifaðir nemendur tæknifræðinámsins.

Nánari upplýsingar um tæknifræðinámið má nálgast í kennsluskrá Háskóla Íslands og á heimasíðu tæknifræðinámsins.