26.05.2011
Tæknifræðin er fag sem Íslendingar ættu að gefa gaum enda er búist við að eftirspurnin eftir starfskröftum tæknifræðinga muni fara
vaxandi bæði hér á landi og erlendis.
Tæknifræðin er fag sem Íslendingar ættu að gefa gaum enda er búist við að eftirspurnin eftir starfskröftum tæknifræðinga muni fara
vaxandi bæði hér á landi og erlendis.
Viðtal við Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóra Keilis í Morgunblaðinu 26. maí 2011 um tæknifræðinám hjá Keili.
Tæknifræðingar starfa á flestum sviðum atvinnulífsins, allt frá iðnaði yfir í framleiðslu og hátækni. Við
sjáum mörg af framsæknustu og stöndugustu fyrirtækjum landsins hreinlega æpa eftir fleiri tæknifræðingum. Við sjáum það
líka í 2020 plaggi ríkisstjórnarinnar að þar er kallað eftir tæknimenntun. Úti um allan heim er talað um að nýsköpun og
nýjungar haldist hönd í hönd við tæknimenntun og verði stærsti vaxtarsproti næstu ára og áratuga.
Iðnmenntun veitir forskot
Hjálmar segir tæknifræði og verkfræði tvær greinar af sama meiði. "Þar er önnur teóretísk og hin praktísk.
Tæknifræðingur sér til þess að það sem verkfræðingurinn hefur teiknað upp komist í framkvæmd. Þetta er
sjálfstæð BS-gráða á háskólastigi og getur staðið ein og sér eða verið sterk viðbót við annað nám
á tengdum sviðum."
Hjálmar segir að tæknifræðinámið ætti að geta átt sérstaklega vel við þá sem hafa iðnmenntun að baki og
vilja gera sig verðmætari á vinnumarkaði. Tæknifræðin geti t.d. brúað bilið yfir í aðra geira eftir að byggingariðnaðurinn
staðnaði. "Iðnaðarmenn hafa mjög góðan grunn fyrir þetta nám því góður tæknifræðingur þarf að hafa
góða innsýn í hvernig ferlar og verkefni ganga fyrir sig í raun, og þekkja handtökin sem þarf að vinna. Þetta er fag sem vissulega reynir
á stærðfræði og útreikninga, en byggist ekki síður á verklegri útsjónarsemi, og þar hafa iðnaðarmenn oft mikið
forskot," segir hann en meðallaun íslenskra tæknifræðinga eru um 600 þús. kr. á mánuði.
Hjá Keili er reynt að leita allra leiða til að auðvelda fólki að hefja nám að nýju og þess gætt að finna hverjum og einum
nemanda stað sem hæfir honum. "Margir eru kannski með að baki vinnu eða menntun á ákveðnum sviðum og þá er hægt að meta
það inn í námið svo ekki þarf að byrja alveg á byrjunarreit. Umsækjendur eru metnir á einstaklingsforsendum og stungið inn í kerfi
sem hentar hverjum og einum og sá sem þarf að bæta við sig t.d. stærðfræðigreinum getur byrjað á einum stað, á meðan annar
nemandi byrjar á öðrum stað. Gráðan er sú alltaf sú sama og hvergi vikið frá þeirri kröfu að nemendur útskrifaðist
sem fullfærir tæknifræðingar."
Reynt er að bjóða sem mestan sveigjanleika og segir Hjálmar t.d. hægt að taka námið í þrepum með því að ljúka
fyrst diplómagráðu áður en ráðist er í fulla BS-gráðu. "Ef fólk ákveður að taka sér hlé í
miðju námi er það með fullgildar háskólaeiningar í farteskinu, viðurkenndar af Tæknifræðingafélagi Íslands, og getur
tekið upp þráðinn hvenær sem er, bæði hérlendis og erlendis."
Nánari upplýsingar um tæknifræðinám á háskólastigi hjá Keili á heimasíðu Orku- og tækniskólans