Fara í efni

Um 100 útskrifaðir hjá Keili

Föstudaginn 4. mars voru útskrifaðir 97 nemendur á vegum Keilis. Föstudaginn 4. mars voru útskrifaðir 97 nemendur á vegum Keilis.


Um er að ræða 73 nemendur úr fjarnámi Háskólabrúar, 21 nemandi í flugumferðarstjórn og þrír úr bóklegu atvinnuflugmannsnámi. Þar með hafa 724 nemendur hlotið brautskráningarskírteini frá Keili á þeim tæpu fjórum árum sem skólinn hefur starfað.

Fjarnámshópurinn kemur víða að. Keilir hefur þróað einstaklega góða tækni í fjarnámi sem gerir fólki kleift að stunda nám að miklu leyti á netinu við mjög góð gæði og nánum tengslum við kennara. Í flugumferðarstjórninni náði 21 nemandi alla leið, þ.e. að komast í gegnum þær síur sem nám í flugumferðarstjórn felur í sér. 

Fram kom í máli Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Keilis, að nemendur eru nú tæplega 600 talsins. Taldi hann mikilvægt að sinna ungu fólki vel  - ekki síst á tímum kreppu – svo við lentum ekki í sömu ógöngum og Finnar á sínu tíma. Unga fólkið hreinlega gleymdist þar á tímum kreppunnar með óbætanlegum skaða fyrir samfélagið.

Viðurkenningar voru veittar:  Frosti Heimisson fyrir gott framlag við uppbyggingu námsbrautar í flugumferðarstjórn, Karen Axelsdóttir dúxaði í flugumferðarstjórn með einkunnina 9,83. Þá dúxaði Snjólaug Guðrún Jóhannesdóttir á Háskólabrúnni. Hlutu þau öll viðurkenningu fyrir vikið og Snjólaug Guðrún flutti skörulega kveðjuræðu fyrir hönd nemenda.

Jógvan Hansen, söngvari og fyrrum nemandi á Háskólabrú söng í upphafi og við lok athafnar. Keilir starfar nú á fjórum meginsviðum: Háskólabrú, Orku- og tækniskóla, Heilsuskóla og Flugakademíu. Innritun fyrir næstu önn er hafin á www.keilir.net.