Fara í efni

Útskrift Keilis á Ásbrú

Útskriftarhópur Keilis á Ásbrú
Útskriftarhópur Keilis á Ásbrú
Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 132 nemendur af fjórum brautum af við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú föstudaginn 5. júní. Útskrifaðir voru nemendur af Háskólabrú, einka- og styrktarþjálfaranámi, leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku og atvinnuflugmannsnámi. Þau tímamót voru við þetta tækifæri að tvöþúsundasti nemandinn útskrifaðist úr Keili og féll sá heiður Davíð Ágústssyni, nemanda í atvinnuflugmannsnámi Flugakademíu Keilis, og fékk hann bókagjöf frá ISAVIA.
 
Háskólabrú Keilis útskrifaði í allt 40 nemendur úr þremur deildum: Félagsvísinda- og lagadeild; Hugvísindadeild; og Viðskipta- og hagfræðideild. Nemendur Verk- og raunvísindadeildar útskrifast síðan í ágúst. Soffía Waag Árnadóttir, forstöðumaður Háskólabrúar flutti ávarp. Dúx var Haukur Daði Guðmundsson með 9,14 í meðaleinkunn. Fékk hann bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir bestan námsárangur. Kristrún Helga Jóhannsdóttir flutti ræðu útskriftarnema. Með útskriftinni hafa samtals 1.256 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. 
 
31 nemandi lauk atvinnuflugmannsprófi frá Flugakademíu Keilis. Snorri Páll Snorrason, skólastjóri Flugakademíunnar flutti ávarp. Sebastian Fredsholt frá Danmörku fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,79 í einkunn sem er hæsta meðaleinkunn sem hefur verið veitt í atvinnuflugmannsnámi Keilis frá upphafi. Christoffer Schröder flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.
 
47 nemendur útskrifuðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 39 einkaþjálfarar, 8 styrktarþjálfarar. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp, Snjólfur Björnsson fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,52 í meðaleinkunn og Eyþór Ingi Einarsson í ÍAK styrktarþjálfun með 9,06 í meðaleinkunn. Fengu þeir gjafabréf frá Sporthúsinu í Reykjanesbæ. 
 
Þá brautskráðust fjórtan leiðsögumenn í ævintýraferðamennsku á vegum Keilis og Thompson Rivers University í Kanada. Þetta er annar hópurinn sem lýkur náminu, sem er átta mánaða háskólanám þar sem helmingur námsins fer fram víðsvegar um í náttúru Íslands. Elín Lóa Baldursdóttir, nemandi í ævintýraleiðsögunáminu, fékk gjöf frá GG sjósport sem viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8.87 í meðaleinkunn og flutti hún einnig ávarp útskriftarnema.
 
Í allt hafa 2.123 nemendur útskrifast frá Keili síðan hann hóf störf árið 2007. Fjöldi umsókna hefur borist um nám fyrir haustið 2015. Mikil aukning er í atvinnuflugmannsnám í Flugakademíu Keilis auk þess sem fjöldi umsókna hafa borist í leiðsögunám í ævintýraferðamennsku og einkaþjálfaranám Íþróttaakademíu Keilis. Sem fyrr eru flestir umsækjendur um nám í Háskólabrú Keilis, en að jafnaði stunda um tvö hundruð einstaklingar staðnám og fjarnám í Háskólabrú á ári hverju. 
 
Enn er hægt að sækja um nám í flestum deildum Keilis og er hægt að nálgast nánari upplýsingar á www.keilir.net.