Fara í efni

Útskrift Keilis á Akureyri

Útskriftarópur ÍAK og Háskólabrúar Keilis
Útskriftarópur ÍAK og Háskólabrúar Keilis

Föstudaginn 7. júní voru útskrifaðir nemendur í staðnámi Háskólabrúar og ÍAK einkaþjálfun á Akureyri. Að þessu sinni útskrifuðust 11 manns úr Háskólabrú Keilis og níu ÍAK einkaþjálfarar. Alls hafa þá útskrifast 98 manns síðan Keilir hóf að bjóða upp á staðnám á Akureyri árið 2010, jafn margir aðilar úr báðum deildum.

 
Útskriftin fór fram í húsnæði SÍMEY. Við útskriftina fluttu Áslaug Kristjánsdóttir ræðu fulltrúa nemenda Háskólabrúar Keilis og Jón Viðar Þorvaldsson ræðu fulltrúa nemenda úr ÍAK. Eva Rut Friðgeirsdóttir var dúx á Háskólabrú með 8,33 í meðaleinkunn og dúx í ÍAK einkaþjálfun var Brynhildur Erla Jakobsdóttir með 9,26 í meðaleinkunn.
 
Mikil ásókn er í námsframboð Keilis á Akureyri og verður aftur í ár tekið er við umsóknum í staðnám í Háskólabrú og ÍAK einka- og styrktarþjálfun á Akureyri. Umsóknarfrestur um nám er til 19. júní næstkomandi. 
 
Kennsluaðferðir á Háskólabrú eru fjölbreyttar og hefur skólinn tileinkað sér speglaða kennslu þar sem áhersla er á virkni nemenda í kennslutímum. Námið hefur gefið fjölda fólks nýtt tækifæri til náms og hafa flestir útskrifaðir nemendur hafið háskólanám að náminu loknu. Boðið er upp á staðnám í Háskólabrú á Akureyri í samstarfi við SÍMEY. Í allt hafa yfir 800 manns útskrifast úr Háskólabrú Keilis síðan skólinn hóf starfsemi og hafa langflestir haldið áfram í háskólanám.