27.03.2020
Þær gríðarlega miklu breytingar sem hafa verið á skólastarfi undanfarnar vikur hafa leitt til þess að menntastofnanir á flestum skólastigum eru farnar að líta á nýjar leiðir til að haga kennslu.
Í hartnær áratug hefur Keilir stuðst við vendinám en þá er meðal annars stuðst við upptökur á fyrirlestrum kennara. Nemendur geta þannig horft á kennsluefnið eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Hefur þetta kennslufyrirkomulag gert það að verkum að Keilir hefur getað aðlagast breyttu skólahaldi tiltölulega fljótt og auðveldlega.
Keilir stýrði á árunum 2014 - 2016 Erasmus+ verkefni um verklagsviðmið varðandi innleiðingu vendináms í skólum þar sem upplýsingatækni er notuð til að auðga námsumhverfi nemenda. Einkum var leitast við að afmarka og gera grein fyrir þeim þáttum í innleiðingarferli sem stuðla að árangursríkri notkun upplýsingatækni, einstaklingsmiðuðu námsumhverfi, og verkefnamiðuðu námi. Meðal afurða verkefnisins voru handbækur fyrir kennara sem vilja innleiða vendinám og góðar starfsvenjur í vendinámi.
Hægt er að nálgast upplýsingar úr verkefninu á heimasíðunni Flipped Learning in Praxis en þær geta nýst meðal annars kennurum og skólastjórnendum sem vilja aðlaga sig að breyttum kennsluháttum.