17.05.2022
Í vikunni lýsti Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Í ljósi aðstæðna viljum við benda starfsfólki og nemendum á viðbragðsáætlun Keilis sem aðgengileg er á heimasíðu skólans. Áætlunin er unnin af framkvæmdastjórn Keilis og eru í samræmi við leiðbeiningar frá Almannvörnum og athugasemdir viðbragðsaðila á svæðinu.
Viðbrögð við jarðskjálfta
- Mikilvægt er að halda ró sinni og skapa ekki óþarfa spennu.
- Við jarðskjálfta getur verið hættulegt að hlaupa út úr skólanum í óðagoti.
- Reyndu að leita skjóls og vera kyrr á öruggum stað innandyra t.d. úti í horni við burðarveggi fjarri gluggum, undir borði eða í dyragætt. Leitastu alltaf við að skýla höfðinu.
- Bíddu eftir aðstoð eða boðum um að rýma skólann. Ef engin aðstoð berst verður kennari/starfsmaður að meta aðstæður. Ef kennari/starfsmaður metur að rýma þurfi húsnæðið skal það gert samkvæmt rýmingaráætlun (ekki hlaupa út í óðagoti).
- Þegar skólinn er yfirgefinn skal safnast saman á körfuboltavellinum austan við skólann.
- Leitist við að forða nemendum og starfsfólki á fumlausan og skipulegan hátt, ákveðið hver fer fyrstur og hver verður síðastur til að minnka líkurnar á að einhver slasist eða gleymist.
- Takið ekki óþarfa áhættu, hugsið fyrst og fremst um ykkar eigið öryggi.
- Hugsa skal að fyrstu hjálp fyrir þá sem þess þurfa.
Varist eftirfarandi atriði:
- Húsgögn sem geta hreyfst úr stað eða fallið.
- Hluti sem geta fallið úr hillum eða skápum.
- Ofna sem geta henst úr festingunum.
- Rúður sem geta brotnað og glerbrot sem gætu verið á gólfum.
Á heimasíðu Keilis má auk þess finna helstu upplýsingar um viðbrögð við jarðvá og rýmingaráætlun. Ef til eldsumbrota eða jarðhræringa kemur verða viðeigandi ferlar settir í framkvæmd innan Keilis, auk þess sem starfsfólki, nemendum og aðstandendum verður haldið upplýstu um framvindu mála.