Vinnuverndarskóli Íslands tók til starfa í upphafi árs 2020 og hefur úrval námskeiða farið stöðugt vaxandi síðan. Skólinn sérhæfir sig í sveigjanlegri og skilvirkri vinnuverndarfræðslu sem lagar sig að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig.
Leiðbeinendur skólans hafa að geyma áralanga reynslu af vinnuverndarfræðslu og byggja námskeið skólans á nýstárlegum kennsluháttum Keilis. Núna eru í boði tæplega 30 námskeið en þeim fjölgar í haust. Hvert námskeið er allt frá einni klukkustund upp í nokkra daga, segir Guðmundur Kjerúlf, forstöðumaður Vinnuverndarskólans.
Fræðsla miðar að þörfum nemandans
Námskeiði skólans eru í boði bæði í fjar- og staðnámi. Vinnuverndarnámskeið og vinnuvélanámskeið sem eru til dæmis bæði í fullu fjarnámi eða að hluta í fjarnámi með kennslu í gegnum Teams. Nemendur fá aðgang að öllu námsefni og kennslustundum rafrænt áður en námskeið hefst og koma undirbúnir í vinnustofur. Það gerir námið skilvirkara og hagkvæmara. Nemendur fá þannig að njóta fyrsta flokks fræðslu sem mótuð er innan formlegs skólakerfis í nýstárlegu og notendavænu umhverfi. Með þessu er komið til móts við þarfir fyrirtækja og fjarvera starfsfólks frá vinnustað verður minni. Fyrirtæki eru þá ánægð að missa starfsfólk ekki úr húsi sérstaklega þegar Covid 19 hefur verið sem verst.
Heimsfaraldur dregur dilk á eftir sér
Stuttu eftir að Vinnuverndarskólinn tók til starfa 2020 mætti óboðinn gestur, sjálfur heimsfaraldurinn. Við vorum búin að halda þrjú námskeið í kennslustofu og var nokkur fjöldi námskeiða á dagskrá. Út af breyttum reglum urðum við að fella niður öll námskeið í kennslustofu í mars, apríl og maí 2020. Við héldum eins og aðrir að þetta ástand myndi ganga yfir á 2-3 mánuðum og í byrjun notuðum við tímann og bjuggum til ný námskeið eins og Grunnámskeið vinnuvéla. Svo vorum við hvött til að prófa að halda námskeið í fjarnámi í apríl og létum slag standa og fegnum um tuttugu manns á það. Út frá því sáum við að fólk og fyrirtæki voru opin fyrir svona námskeiðum.
Við þurftum í raun ekki að breyta miklu til að aðlaga námskeiðin að samkomutakmörkunum, en urðum að aðlaga efnið fjarkennslu. Keilir hefur lengi verið í fremstu röð í fjarkennslu og vendinámi og þar er gríðarleg þekking á þörfum nemenda sem stunda fjarnám. Við nutum reynslu kennara, tölvusérfræðinga og kvikmyndargerðarmanna sem starfa hjá Keili við að laga okkar efni að fjarnámi.
Vendinámssetur Keilis hóf einmitt í vor að leiða samevrópskt samstarfsverkefni um góðar starfsvenjur í evrópskum skólum. Markmið verkefnisins er að draga saman þær breytingar sem hafa átt sér stað í skólum á undanförnum misserum, hvernig Covid hefur aðlagað skólastarf að breyttu námsumhverfi og hvernig snemmtæk íhlutun og aðlögunarfærni hefur haft jákvæð áhrif á framvindu náms í evrópskum skólum.
Námskeið þjóna enn fleirum
Nemendur voru að sögn Guðmundar tilbúnir að mæta breyttum veruleika. Þeir voru örugglega betur tilbúnir en við í byrjun. Það hafa opnast ný tækifæri og nýjir markaðir með fjarnáminu. Við fáum mikið af fólki á landsbyggðinni á námskeið hjá okkur. Hefðbundin kennsla í kennslustofu krefst ferðalaga á milli landshluta til að miðla efni, en með fjarkennslu getum við sinnt þessum hópi enn betur.
Í vor tók Magdalena Maria Poslednik til starfa hjá Keili sem verkefnastjóri nýrra menntatækifæra. Eitt af verkefnum hennar er að þýða námskeið Vinnuverndarskólans yfir á ensku og pólsku svo sem víðastur hópur geti notað þau til fræðslu. Við getum haldið öll okkar námskeið á ensku og pólsku eftir samkomulagi. Við eigum til dæmis námskeið sem heitir Vinnuvernd 101 á ensku og nota nokkrir aðilar það reglulega. Þar er farið yfir það sem skiptir mestu máli í vinnuverndinni á klukkatíma og námskeiðinu lýkur með prófi. Við erum að þýða Grunnnámskeið vinnuvéla á ensku og pólsku en það veitir réttindi á allar gerðir og stærðir vinnuvéla. Þetta er stórt og viðamikið námskeið og vonandi náum við að hefja kennslu í lok september eða byrjun október.
Komið til að vera
Aðspurður hvort 100% fjarnám og kennsla, sem fer að hluta fram í fjarnámi og útsendingu, sé komið til að vera í Vinnuverndarskólanum jánkar Guðmundur því. Þegar Covid gengur yfir mun auðvitað koma einhver kennsla í kennslustofum í fyrirlestrarformi eins og áður, en það verður undantekning frekar en hitt held ég.
Fyrirtæki vilja líka í auknum mæli láta sérsníða fyrir sig efni um vinnuverndar- og öryggismál sem þau geta notað að vild. Nú erum við að búa til kennsluefni í samstarfi við fyrirtæki sem þau svo keyra á sínum tölvukerfum og nota í sínu fræðslustarfi. Nokkur fyrirtæki sem við þjónustum láta starfsfólk taka námskeiðin þegar það er dauður tími í vinnunni. Starfsmaðurinn fer í næstu tölvu, horfir, hlustar og svarar spurningum. Nýliðafræðsla og endurmenntun færist sömuleiðis æ meira í fullt fjarnám. Fjarkennsla gerir nemendum kleyft að búa erlendis eða starfa á sjó þegar þeir eru á námskeiðum hjá okkur.
Þarf að gera þetta rétt
Í dag eru öll okkar námskeið að fullu í fjarnámi eða við sendum fólki efni til að undirbúa sig og svo er námskeiðið tekið í gegnum Teams. Allt efni sem við erum með í fullu fjarnámi er sett saman úr 3-7 mínútna bútum og svo svara nemendur spurningum úr efninu. Þar er mikilvægt að það sem fólk horfir á sé ekki lengnra en 7 mínútur í einu. Eftir það minnkar einbeitingin. Oftast eru girðingar í efninu svo þú kemst ekki áfram nema standa þig vel í verkefnunum.
Öll okkar námskeið eru bókleg svo það er ekki nauðsynlegt að vera á staðnum. Grunnnámskeiði vinnuvéla lýkur með skriflegu krossprófi og þá verða menn að mæta á staðinn, annað hvort hjá okkur í Keili eða hjá Rafmennt í Reykjavík. Slík próf má líka taka hjá fræðslumiðstöfðum úti á landi.
Það er samt eitt námskeið sem ég vil helst kenna í kennslustofu en við höfum þurft að kenna í fjarnámi. Það er námskeið um áhættumat starfa. Þar er best að láta fólk vinna saman í 3-6 manna hópum. Við ætluðum að vera með slík námskeið í kennslustofu í haust en verðum að breyta því í fjarnám og útsendingu í Teams, það gengur alveg upp og við erum að þróa það áfram.
Hver eru næstu námskeið?
Við erum alltaf með námskeið í gangi í fullu fjarnámi, t.d. vinnuvélanámskeið. Dagskrá haustannar hefst annars 25. ágúst. Þá er útsending á námskeiði fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og hafa þátttakendur fengið mikið af gögnum til að undirbúa sig þegar útsendingin fer fram. Svo verðum við með mörg mismunandi námskeið í fjarnámi og Teams fram að jólum, til dæmis um vinnuslys, fallvarnir, verkstjóranámskeið, vinnu í lokuðu rými, öryggismenningu og fleira. Fljótlega koma svo inn námskeið um öryggi í vöruhúsum og námskeið um lyftitæki sem eru ekki réttindaskyld.