Fara í efni

Yfirlýsing frá Orkurannsóknum vegna mælinga í Helguvík

Egill Þórir Einarsson
Egill Þórir Einarsson

Umhverfismælingar í Helguvík - mikilvægi óháðs mælingaaðila

Umræða um niðurstöður mælingar á mengandi efnum frá verksmiðju United Silicon í Helguvík hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarna viku og þá einkum um hversu áreiðanlegar slíkar mælingar séu eftir að fram kom að mistök hefðu verið gerð við mælingar á þungmálmum. Orkurannsóknir ehf sem ábyrgðaraðili þessara mælinga hefur dregist inn í þá umræðu og fengið gagnrýni fyrir að benda á hugsanlega skekkju í niðurstöðum greininga á þungmálmum.

Samkvæmt samkomulagi við United Silicon í árslok 2014 tóku Orkurannsóknir ehf að sér að hafa umsjón með umhverfismælingum í nágrenni fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju. Orkurannsóknir ehf eru óháður rannsóknaraðili sem starfar innan Keilis og nýtir sérfræðinga skólans á sviði efnaverkfræði, tölvutækni, forritunar og gagnavinnslu. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 og er samþykkt af Umhverfisstofnun. Allur kostnaður við þetta tiltekna verkefni er greiddur af United Silicon, en þetta fyrirkomulag tíðkast á öðrum stöðum í tengslum við stóriðju.

Haustið 2015 voru tekin bakgrunnssýni af mosa, öðrum gróðri, jarðvegi og ferskvatni í samvinnu við Náttúrustofu Suðvesturlands og Náttúrufræðistofnun. Í byrjun árs 2016 voru settar upp þrjár mælistöðvar í nágrenni verksmiðjunnar þar sem fram fara símælingar á brennisteinsdíoxíði (SO2), köfnunarefnisoxíðum (NOx) og örfínu ryki og hófust þær mælingar í janúar 2016. Á tveimur mælistöðvunum eru auk þess staðsettar veðurstöðvar sem mæla vindhraða, vindstefnu, hita- og rakastig. Þá eru einnig tekin vikulega bæði ryk- og úrkomusýni.

Fullkominn mælibúnaður

Allur mælibúnaður er vottaður samkvæmt evrópskum og/eða alþjóðlegum stöðlum. Brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisoxíð og örfínt ryk eru mæld með sjálvirkum mælibúnaði sem skilar niðurstöðum á 10 mínútna fresti inn á vefsíðuna www.andvari.is sem er öllum aðgengileg. Ryksöfnun fer fram með því að draga loft í gegnum síu og er safnað samfellt í 6 daga í einu en alls eru tekin um 40 sýni á ári.

Allir verkferlar eru skilgreindir samkvæmt gæðakerfi Orkurannsókna og rekjanleiki tryggður með skráningum á öllu stigum. Sýni eru send til rannsóknarstofu ALS í Svíþjóð sem fylgir vottuðum mæliaðferðum og eru með gæðavottun skv. ISO 9001-2000.

Mælingar þungmálma í Helguvík

Mælingar á þungmálmum í ryki frá Helguvík hafa verið gerðar í þremur áföngum. Fyrsti hluti var á tímabilinu mars til september 2016, annar október til desember 2016 og sá þriðji frá janúar til mars 2017.

Í öðrum áfanga mældust gildin fyrir flesta málma um fimmfalt hærri heldur en í fyrsta og þriðja áfanga. Ljóst var að niðurstöðurnar stóðust ekki skoðun um áreiðanleika. Þessi niðurstaða byggðist á skoðun á verðurfarsþáttum á því tímabili sem mælingar fóru fram og að verksmiðjan var ekki gangsett fyrr en á miðju tímabilinu. Við samanburð á styrk þungmálma í ryki frá mælistöðvum annars vegar og ryki úr útblæstri kísilverksmiðjunnar og í jarðvegi kom í ljós að margfaldt hærri gildi á þungmálmum mældist í rykinu en hugsanlegum uppsprettum. Undir venjulegum kringstæðum hefðu þessi gildi einfaldlega verið tekin til hliðar þar til frekari mælingar lágu fyrir sem staðfestu eða útilokuðu þau. Aðstæður kröfðust hins vegar skjótra viðbragða og því var tekin ákvörðun um að lýsa þau ómarktæk.

Hlutverk Orkurannsókna í þessu verkefni hefur verið að safna gögnum, meta áreiðanleika þeirra og koma þeim til eftirlitsaðila sem túlkar þau. Þar sem mælingar sýndu gildi fyrir Arsen sem voru yfir umhverfismörkum (6 ng/m3) var nauðsynlegt að tilkynna hugsanlega skekkju vegna fjölmiðlaumræðu sem tengdi þessi háu gildi við starfsemi kísilvers United Silicon.

Hvernig er hægt að fyrirbyggja rangar niðurstöður?

Það er ekkert til sem heitir „rétt“ gildi í mælingum, heldur er reynt að komast sem næst því með endurteknum mælingum. Fyrirbærin núllpunktsskekkja, kerfisbundin mæliskekkja, mælióvissu og staðalfrávik eru lykilatrið í þessu sambandi.

Orkurannsóknir fylgja viðurkenndum ferlum við mælitækni. Þegar hlutir fara úrskeiðis skipta viðbrögðin mestu máli og því verður gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Send hefur verið formleg beiðni til ALS um að yfirfara verkferla varðandi umræddar mælingar
  • Blindprufur af síum verða mældar til að útiloka núllpunktsskekkju
  • Tryggt verður að sýni verði geymd í tilskilinn tíma þannig að hægt sé að fara fram á endurmælingu komi upp svipað tilfelli aftur
  • Samanburðarsýni fyrir ryk verða send til annarra rannsóknarstofa
  • Verkferlar Orkurannsóknar verða yfirfarnir og skráningar auknar

Samantekt

Í vinnslu er ársskýrsla fyrir umhverfismælingar í Helguvík fyrir árið 2016. Hún mun lýsa öllum þáttum mælinga sem farið hafa fram þar á meðal mælingum á jarðvegs-, gróður- og vatnssýnum sem tekin voru haustið 2015. Gert verður grein fyrir símælingum á lofttegundum og ryki sem hófust í janúar 2016 og samanburður á gildum fyrir og eftir gangsetningu verksmiðjunnar í nóvember 2016.

Þessi skýrsla mun varpa skýrara ljósi á mælanleg áhrif kísilverksmiðju United Silicon á nánasta umhverfi. Umhverfisstofnun hefur falið Orkurannsóknum ehf að annast skýrslugerðina og sýnir það það traust sem fyrirtækið nýtur. 

Egill Þórir Einarsson,
Starfsmaður Orkurannsókna ehf


Egill Þórir Einarsson er efnaverkfræðingur frá Norges tekniske högskole og hefur m.a. starfað hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnun, Sjóefnavinnslunni, Vinnueftirliti ríkisins og Kísiliðjunni hf. Hann hefur auk þess starfað hjá Umhverfisstofnun, bæði sem sérfræðingur og fagstjóri á framkvæmda- og eftirlitssviði. Frá árinu 2011 hefur Egill verið sérfræðingur við tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis.