hVERT SKREF SKIPTIR MÁLI
Fótaaðgerðafræði er lögverndað starfsheiti á heilbrigðissviði. Starf fótaaðgerðafræðinga er meðal annars að meta ástand fóta og meðhöndla þau fótamein sem ekki krefjast sérhæfðari læknisfræðilegrar meðhöndlunar. Einnig veita þeir leiðbeiningar varðandi heilbrigði fóta og upplýsingar um úrræði sem heilbrigðiskerfið býður uppá þar að lútandi. Vinna þeirra er framkvæmd í samræmi við uppgefna gæðastaðla og halda þeir sjúkrarskrár samvæmt lögum um starfsemina.
Fótaðgerðafræði var fyrst í boði hjá Heilsuakademíunni vorið 2017 og hófu þá tíu nemendur nám. Menntunin býður upp á góða atvinnumöguleika um allt land og hafa útskrifaðir nemendur gjarnan hafið störf á fótaaðgerðastofum og jafnvel stofnað sínar eigin stofur.
Nám í fótaaðgerðafræði verður ekki í boði fyrir nýnema á haustönn 2024.
Nánar um fótaaðgerðafræði
Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar um fagleg vinnubrögð og nákvæmni og áreiðanleika í starfi. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Sérstök áhersla er lögð á raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir liggja fyrir. Jafnframt fá nemendur þjálfun í að takast á við ófyrirséð verkefni og aðstæður sem krefjast þekkingar, hugkvæmni, hæfni í samskiptum og rökvísi.
Meðal verkefna fótaaðgerðafræðinga við fótameinum má nefna:
- Hreinsun á siggi og nöglum
- Líkþornameðferð, vörtumeðferð og hlífðarmeðferð
- Ráðleggingar varðandi fótaumhirðu með þau markmið að minnka verki, dreifa álagi og bæta göngulag
- Útbúa spangir, hlífar, leppa og innleggssóla
Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsfólk. Þeir sem ljúka námi á brautinni geta sótt um starfsheitið fótaaðgerðafræðingur á grundvelli reglugerðar nr. 1107/2012 og sótt um starfsleyfi til Embætti landlæknis. Nánari upplýsingar um námsbrautina má nálgast á Námskrárvef Menntamálastofnunar
Inntökuskilyrði
Umsækjendur þurfa að hafa:
- Lokið námi í almennum kjarna og almennum heilbrigðisgreinum áður en nám hefst í sérgreinum fótaaðgerðafræði (sjá hér fyrir neðan)
- Vera tilbúnir til að gangast undir skilyrði Landspítalans varðandi bólusetningar þar sem hluti af verknámi fer þar fram. Bólusetningarnar eru á ábyrgð nemenda og standa nemendur undir þeim kostnaði sem fellur til vegna þeirra. Eftirfarandi bólusetningar þurfa nemendur að undirgangast:
- Boostrix polio: Barnaveiki, stífkrampi, kíghósti og mænusótt. Þessa bólusetningu þarf að endurnýja á 10 ára fresti.
- M-m raxpro eða Priorix (MMR): Mislingar, hettusótt og rauðir hundar.
- Lifrarbólga B
- Berklapróf
- Covid-19
- Athugið að nemendur bera sjálfir þann kostnað sem fellur til vegna bólusetninganna.
Fjarnámshlaðborð Menntaskólans á Ásbrú býður upp á áfanga í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum í fjarnámi
Yfirlit yfir áfanga sem þarf að ljúka áður en nám er hafið í sérgreinunum fótaaðgerðafræðinnar
Almennur kjarni (48 einingar) Einingafjöldi* | |
---|---|
Danska | 5 |
Enska
|
10 |
Íslenska | 10 |
Stærðfræði | 5 |
Lífsleikni
|
5 |
Íþróttir | 3 |
Raungreinar | 5 |
Félagsvísindi | 5 |
Heilbrigðisgreinar (61 eining) Einingafjöldi* | |
Heilbrigðisfræði
|
5 |
Líffæra- og lífeðlisfræði | 10 |
Næringarfræði
|
5 |
Samskipti
|
5 |
Sálfræði
|
5 |
Siðfræði heilbrigðisstétta
|
5 |
Sjúkdómafræði | 10 |
Skyndihjálp
|
1 |
Upplýsingalæsi
|
5 |
Sýklafræði | 5 |
Starfsumhverfi heilbrigðisstofnana | 5 |
* Í töflunni er miðað við framhaldsskólaeiningar samkvæmt núverandi einingakerfi. Áfangar sem gáfu 2-3 einingar í gamla einingakerfinu reiknast oftast sem 5 framhaldsskólaeiningar í núverandi einingakerfi. | |
Nemendur þurfa að hafa gilt skyndihjálparskírteini við útskrift |
Samsetning og fyrirkomulag náms
Brautin er samtals 199 einingar og skiptist í 48 einingar í almennum kjarna, 61 eining í heilbrigðisgreinum sem er sameiginlegt öðrum heilbrigðisstéttum og 90 eininga nám í bóklegum og verklegum sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Gera má ráð fyrir að nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum taki 3 - 4 annir og miðað er við að nemendur hafi lokið því áður en þeir koma inn í sérgreinarnar (sjá Inntökuskilyrði).
Nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar hjá Keili telur þrjár annir. Bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi með reglulegum staðlotum og verklegir áfangar eru kenndir í húsnæði Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Góðar almenningssamgöngur eru milli Ásbrúar og Höfuðborgarsvæðisins.
Mikil áhersla er lögð á starfsþjálfun nemenda og stór hluti námsins fer því fram á fótaaðgerðastofu í skólans. Þar taka nemendur á móti skjólstæðinum undir leiðsögn kennara. Einnig fer hluti starfsþjálfunar fram innan veggja Landspítalans og inn á einkafótaaðgerðastofum. Auk þess fara nemendur í fjölbreyttar vinnustaðaheimsóknir s.s. á dvalar- og hjúkrunarheimili, heilsugæslustöðvar og til stoðtækjasmiða.
Námslok á brautinni eru skilgreind sem próf til starfsréttinda á þriðja hæfniþrepi.
Upplýsingar um skipulag námsins og áfangalýsingar má nálgast á Námskrárvef Menntamálastofnunar
Upplýsingar fyrir nemendur
Hér má nálgast stundaskrár í Fótaaðgerðafræði. Vinsamlegast athugið að þær eru birtar með fyrirvara um breytingar.
------
Algengar spurningar
Get ég stundað námið hvar sem er á landinu?
Námið er skipulagt sem fjarnám með staðlotum. Nemendur geta í raun stundað námið hvar sem er á landinu en þurfa þó að mæta töluvert á staðinn. Lauslega má miða við að mæting sé í húsnæði Keilis aðra hvora viku í 3 - 5 daga í senn.
Er mögulegt að vinna með náminu?
Ekki er ráðlagt að vinna með náminu þar sem álagið í náminu er mikið. Umfang námsins er sem nemur fullu námi á framhaldsskólastigi eða 30 einingar á önn.
Hvað kostar námið?
Upplýsingar um námsgjöld er að finna í verðskrá Heilsuakademíunnar.
Er námið hugsað fyrir fólk á ákveðnum aldri?
Nei, námið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga fyrir því að gerast fótaaðgerðafræðingur, óháð aldri og kyni.
Hver eru inntökuskilyrðin?
Umsækjendur þurfa m.a. að hafa lokið þeim áföngum sem tilheyra kjarna og heilbrigðsgreinum námsbrautarinnar, sjá nánari upplýsingar um inntökuskilyrði hér.
Get ég tekið þá áfanga sem við vantar uppá til að komast inn hjá Keili?
Á Fjarnámshlaðborði Keilis eru áfangar í boði sem tilheyra inntökuskilyrðum í sérgreina hluta fótaaðgerðafræðinnar. Nánari upplýsingar um Fjarnámshlaðborðið má finna hér
Get ég tekið námslán fyrir skólagjöldum?
Já, Menntasjóður námsmanna lánar fyrir skólagjöldum í fótaaðgerðafræði.
Er gerð krafa um mikla tölvuþekkingu?
Fjarnámsfyrirkomulag námsins gerir þær kröfur að nemendur séu ágætlega tölvulæsir. Tölvudeild Keilis er tilbúin að aðstoða nemendur við að nýta sér þann hugbúnað sem skólinn notar við kennslu.
Býður skólinn uppá aðstoð til þeirra sem hafa verið lengi frá námi og eiga jafnvel við námsörðugleika að stríða?
Já, námsráðgjafar eru starfandi við skólann sem aðstoða nemendur varðandi námstækni og skipulag.
Draumur minn hefur alltaf verið að gerast sjálfstætt starfandi aðili með eigin rekstur. Fótaaðgerðafræði er heilbrigðisfag sem höfðar til mín og gerir mér kleift að elta drauma mína.