Keilir verður með opinn kynningarfund í Farskólanum, Faxatorgi á Sauðárkróki, um fjarnám Háskólabrúar og Háskólabrú með vinnu, þriðjudaginn 28. október kl. 19:00. Allir velkomnir.
Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi og uppfylla nemendur að loknu náminu inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis. Keilir eini skólinn sem býður upp á aðfararnám í samstarfi við Háskóla Íslands, sem þýðir að útskrifaðir nemendur Háskólabrúar hafa úr mestu námsframboði að velja af íslenskum skólum sem bjóða upp á aðfaranám.
Fjarnám í Háskólabrú
Fjarnám í Háskólabrú Keilis hefst næst í janúar 2015. Námsfyrirkomulagið er með þeim hætti að nemendur mæta á staðlotur í upphafi hverrar námslotu. Lokapróf eru yfirleitt haldin fyrir hádegi á fimmtudögum. Staðlotur eru að jafnaði tveir dagar, föstudagur og laugardagur. Fjarnám getur hentað þeim sem að vilja nýta sér nýjustu tækni í kennslu, haga sínum námstíma eftir þörf í tíma og rúmi. Þannig geta nemendur hlustað á fyrirlestra, fylgst með hvernig stærðfræðidæmi eru reiknuð, lagt málefnum lið á spjallþráðum og spurt spurninga.
Háskólabrú með vinnu
Keilir býður nú upp á aðfaranám að háskólanámi í fjarnámi til tveggja ára. Um er að ræða frábæran möguleika fyrir þá sem að vilja taka Háskólabrú með vinnu eða taka aðfaranám á lengri tíma. Námið er tekið á tveimur árum og er skipulagt eins og fjarnám Háskólabrúar. Háskólabrú með vinnu hefst 28. nóvember næstkomandi og er umsóknarfrestur til 20. nóvember.
Nýtt tækifæri til náms
Hátt í 1.200 einstaklingar hafa lokið námi í Háskólabrú Keilis og hefur námið undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur, ásamt því að miða kennsluhætti við þarfir fullorðinna nemenda. Miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Skipulag námsins hentar fullorðnum námsmönnum einstaklega vel þar sem kennt er í lotum, nemendur einbeita sér að einum áfanga í einu sem tekur um fimm vikur.
Nýstárlegir kennsluhættir í framsæknu skólaumhverfi
Keilir er leiðandi aðili í vendinámi eða speglaðri kennslu. Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu og geta nemendur horft á þær eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Nemendur vinna aftur á móti heimavinnuna í skólanum, oft í verkefnum, undir leiðsögn kennara. Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið frábrugðnar hefðbundinni kennslu. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.