Aðsókn í Menntaskólann á Ásbrú er góð. Umsóknum sem bárust um skólavist í MÁ 2023 hefur verið svarað og voru 38 umsóknir samþykktar. Stundaskrá fyrir nemendur í MÁ opnast í Innu 14.ágúst og kennsla hefst samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 16.ágúst. Um leið og skólastarfið hefst er nauðsynlegt að nemendur og forráðamenn hafi aðgang að tölvukerfi Innu. Til þess þarf að hafa rafræn skilríki eða íslykil.
Til viðbótar við stúdentspróf í tölvuleikjagerð er nú mögulegt að útskrifast frá MÁ með stúdentspróf á opinni braut. Opna brautin hentar nemendum sem vilja vera í lotukerfi eða fámennum skóla en hafa ekki endilega áhuga á tölvuleikjagerð eða skapandi greinum. Nemendur skipuleggja nám sitt innan ákveðinna marka í samráði við námsráðgjafa.
Flestir umsækjendur í MÁ velja skólann vegna tölvuleikjagerðarinnar, lotufyrirkomulags og þeirrar staðreyndar að það eru engin lokapróf í neinum áfanga. Námsmatsfyrirkomulag í MÁ er fjölbreytt símat þar sem ýmiskonar verkefni eru lögð fyrir ásamt tveimur lykilmatsverkefnum.