Fara í efni

Ræktun í upphituðum jarðvegi

Nýverið birtist grein í tímariti Tækniseturs Oregon í jarðhitarannsóknum "Geo-Heat Center Quarterly" þar sem fjallað er um rannsóknir á Íslandi sem tengjast nýtingu jarðhita í landbúnaði. Björg Árnadóttir, nemandi á lokaári í orku- og umhverfistæknifræði hjá Keili, vinnur BSc verkefni sitt í samstarfi við einn höfunda greinarinnar um nýtingu á affalli húsa til upphitunar jarðvegs.

Nýverið birtist grein í tímariti Tækniseturs Oregon í jarðhitarannsóknum "Geo-Heat Center Quarterly" þar sem fjallað er um rannsóknir á Íslandi sem tengjast nýtingu jarðhita í landbúnaði. Björg Árnadóttir, nemandi á lokaári í orku- og umhverfistæknifræði hjá Keili, vinnur BSc verkefni sitt í samstarfi við einn höfunda greinarinnar um nýtingu á affalli húsa til upphitunar jarðvegs.

Á Suðurnesjum og víða um Ísland á gróður erfitt uppdráttar. Markmið verkefnisins er að skoða hvort hægt sé að nota affallsvatn húsa til að hita upp jarðveg og gefa gróðri þannig betra tækifæri til að komast á legg og nýta með því betur þá orku sem annars færi til spillis.

Settir hafa verið upp tilraunareitir á lóð Keilis, en með reglulegum mælingum á hita og rakastigi í reitunum, ásamt því að fylgjast vel með vexti gróðursins, er ætlunin að finna út hvaða hitastig og jarðvegsdýpt hentar gróðri best, auk þess að sjá hvaða áhrif hitinn hefur á vaxtarhraða og vaxtartímabil.
 
Tilraunareitirnir eru allir með snjóbræðslukerfi undir moldinni. Kerfið er þrískipt. Á einu kerfinu er 60°C heitt vatn, á öðru 40°C  heitt, en á síðasta kerfinu er ekkert vatn. Þannig fæst samanburður við ræktun í óupphitaðri mold. Reitirnir eru einnig mis djúpir og er gróðurmoldin 10 - 30 cm á dýpt.
 
Notkunarmöguleikar eru meðal annars að hægt verður að nýta affallsvatn húsa til að styðja við  trjárækt, til dæmis hér á Ásbrú. Einnig má hugsa sér að hægt verði að lengja vaxtartímabil matjurta sem jafnvel gæti þýtt að matjurtir sem ekki hafa áður náð að þrífast á Íslandi gætu náð að vaxa og dafna utandyra í framtíðinni.